top of page

Selfcare <3

Það hafa margir beðið mig um að skrifa um það hvernig ég tekst á við kvíða og þunglyndi og ég ætla að deila með ykkur nokkrum ráðum sem hafa hjálpað mér og ég vona að þið getið nýtt ykkur eitthvað af þessum ráðum <3 Ég var á félagsvísindabraut-sálfræðisviði í Kvennaskólanum í Reykjavík og þar lærði ég margt um geðraskanir og andlega heilsu og er mjög þakklát fyrir þá þekkingu. Meðal annars er ég að glíma við þunglyndi, kvíða og áfallastreituröskun svo ég hef töluverða persónulega reynslu. Ég hef alltaf verið mjög opin með andlegu veikindin mín og ég veit að það hefur hjálpað mörgum að sjá að það eru fleiri sem líður eins og þeim og að þau séu ekki ein í þessu. Ég set hér link af posti sem ég postaði um mína verstu tíma þegar ég glímdi við alvarlegt þunglyndi og kvíða sem leiddu til sjálfsvígshugsana og ég vona að það hjálpi fólki að vita að það er hægt að komast í gegnum erfiða tíma þrátt fyrir að það virðist vera ómögulegt á meðan þeim stendur <3


Það finna allir fyrir kvíða einhverntíman í lífinu og það er eðlilegt viðbragð líkamans þegar okkur finnst við vera í hættu á einhvern hátt. Ef kvíðinn er farinn að hafa áhrif á daglegt líf og skerða lífsgæði manns þá þarf að leita hjálpar hjá fagaðila og þá er líklegt að maður sé með kvíðaröskun sem þarf að vinna í. Einnig finna allir fyrir tímabundinni depurð og vonleysi á einhverjum tímapunkti og það er einnig fullkomnlega eðlilegt en þegar depurðin og vonleysið er farið að skerða lífsgæði allsvakalega þá er depurðin orðin að þunglyndi þá þarf maður að leita sér hjálpar hjá fagaðila.


Fagaðstoð


Ég hef farið til margra sálfræðinga og það tók mig mjög langan tíma að finna sálfræðing sem hentar mér. Það er mjög persónubundið hvaða sálfræðingur hentar hverjum og einum og því mæli ég með því að leita þangað maður hefur fundið þann rétta.

Sálfræðingurinn sem ég hef verið hjá síðustu ár heitir Jóhann Ingi Gunnarsson og hann hefur hjálpað mér hrikalega mikið þegar mér finnst allt vera vonlaust og ömurlegt, ég er þakklát að hafa gefið mér tíma til að finna rétta sálfræðinginn fyrir mig! Hann hefur til dæmis unnið mikið með íþróttafólki og sú þekking hans hjálpar mér mjög mikið sem og svo margt annað. Hann er frábær og ég er honum mjög þakklát. Hann kom fram í podcastinu hans Snorra Björns og ég mæli með að hlusta á þann þátt, ég hlusta reglulega á hann þegar ég þarf smá spark í rassinn. Þátturinn heitir #73 Jóhann Ingi Gunnarsson-Viðtalið sem þú þurftir að heyra.


Svo langar mig að mæla með Kvíðameðferðarstöðinni. Ég var þar í viðtalsmeðferð vegna áfallastreituröskunnar og lærði þar mjög margt sem hefur gagnast mér vel í baráttunni við þessa erfiðu kvíðaröskun.


Píeta samtökin sinna líka gríðarlega mikilvægu og óeigingjörnu starfi. Fólk sem er með mikinn sálrænan sársauka, sjálfsvígshugsanir eða í sjálfsvígshættu, aðstandendur þeirra og aðstandendur þeirra sem fallið hafa fyrir eigin hendi geta fengið þar ráðgjöf og viðtalsmeðferðir og gengið í stuðningshópa. Síminn hjá þeim er alltaf opinn og hann er 5522218. Ekki hika við að hringja ef þú þarft á aðstoð að halda <3


1717 Hjálparsími Rauða krossins er einnig alltaf opinn og þar eru sjálfboðaliðar sem taka við símtölum, veita virka hlustun, sálrænan stuðning og upplýsingar um þau úrræði sem eru í boði á Íslandi.


Svo mæli ég einnig með síðunni https://www.eittlif.is/leitarvel/ en þarna er góð leitarvél sem finnur öll helstu úrræði fyrir þig!


 

Ráð við kvíða, þunglyndi og fleiri andlegum veikindum sem þú getur gert sjálf/sjálfur/sjálft til þess að líða betur<3


Ég ætla að koma með nokkur ráð sem hjálpa mér að komast í gegnum erfiða daga. Stundum er mjög erfitt að koma sér frammúr og virðist jafnvel ómögulegt, stundum er maður bara orðinn mjög andlega og líkamlega þreyttur og þá er gott að hlusta á líkamann og sálina og hvíla sig en það gengur ekki að hvíla sig endalaust. Það kemur sá dagur þar sem maður verður að koma sér frammúr og gera eitthvað uppbyggilegt. Ég er ekki að tala um að maður þurfi að rífa sig á lappir og fara út að hlaupa maraþon, alls ekki. Það eru litlu sigrarnir sem skipta líka miklu máli í leitinni að vellíðan. Maður verður að muna eftir því hvernig það er að vinna litlu sigrana afþví það eru þeir sem koma manni áfram á erfiðum tímum <3


Góð tónlist

Mér finnst gott að hlusta á góða tónlist til þess að koma mér af stað ef það er þungt yfir mér. Ég er með marga playlista á Spotify hjá mér og finnst gott að hlusta á hvetjandi lög þegar ég þarf á peppi að halda. Svo ég mæli með að þið búið til playlista með uppliftandi og hvetjandi lögum sem koma ykkur í gott skap og hlusta á hann þegar þið þurfið á að halda <3


Podcast

Það sama á við um podcöst, ég mæli mjög mikið með að hlusta á gott podcast, eitthvað sem kemur þér í gang, sama hvort það fái þig til að hlæja eða til að hugsa um hvað þú getur gert til þess að líða betur.





Hreyfing og ferskt loft

Við vitum öll að hreyfing lætur okkur líða vel, það þarf ekki að vera meira en að fara í góðan göngutúr, fá sér ferskt loft og koma blóðflæðinu aðeins af stað. Við erum svo heppin að búa á Íslandi og við eigum svo fallega náttúru sem auðvelt er að nálgast. Mér finnst langbest að fara í göngutúr eða út að hlaupa í náttúrunni, það gefur mér auka orku. Mæli með að hreyfa sig á einhvern hátt, hvort sem það er göngutúr, æfing, hjólatúr, hlaupatúr, sund eða bara hvaða hreyfing sem hentar hverjum og einum. Svo er líka sniðugt að blanda hreyfingunni og tónlistinni eða podcastinu saman ;)




Tiltekt

Það gerist oft í andlegum lægðum að ég geng illa um í kringum mig og áður en ég veit af er herbergið mitt orðið fullt af drasli og þá finnst mér gott að rífa mig í gang og setja á góða tónlist eða podcast og taka til í herberginu og þrífa. Tilfinningin sem ég fæ þegar ég er búin að klára þetta verk er mjög góð afþví ég bæði náði að klára verkefni sem er persónulegur sigur og mér líður betur þegar það er hreint í kringum mig. Svo er möst að kveikja á góðu ilmkerti þegar tiltekt er lokið ;)



Skipulag

Að setjast niður og skrifa niður markmið og skipulag fyrir næstu daga hefur hjálpað mér rosalega mikið. Markmið eru frábær leið til þess að hafa eitthvað til þess að vinna að, en maður verður að setja sér raunhæf markmið svo hægt sé að ná þeim. Á síðasta árinu mínu í Kvennó var ég að upplifa mjög erfiða tíma, var mjög andlega veik og mætti lítið í skólann og sinnti varla neinu í lífinu, þá greip einn af yndislegu kennurunum mínum inní og hún bjó til vikuplan með mér og lét mig skrifa allt sem ég myndi gera yfir daginn, sama hversu venjulegt það væri, til dæmis bara það að skrifa niður "fara á fætur, fara í skólann, borða mat..." og svo þegar ég var búin að klára það þá gerði ég tjekk merki fyrir aftan. Að sjá öll þessi tjekkmerki gaf mér svo mikið, ég sá alla litlu sigrana sem ég hafði unnið yfir daginn og var svo spennt að ná að vinna fleiri litla sigra næstu daga. Það er líka bara svo gott að skrifa niður allt sem maður þarf að gera og hafa það á blaði fyrir framan sig og þá hefur maður góða yfirsýn yfir allt og það er erfiðara að gleyma. Ég á það til að sleppa því að gera það sem ég þarf að gera afþví mér finnst ég ekki hafa tíma í það en þegar ég skrifa allt niður þá sé ég að ég hef nægan tíma til að gera allt sem ég þarf að gera. Það kemur oft fyrir að ég fæ heilaþoku þegar mér líður ekki nógu vel og þá gleymi ég oft því sem ég ætla að gera og þá er gott að hafa allt skrifað niður. Ég læt fylgja hér það sem ég nota oft ef ég þarf að skipuleggja komandi viku. Gott að nota þetta til dæmis í prófaundirbúningi eða bara þegar það er margt á dagskránni á næstunni. Ég prenta þetta bara út svona og handskrifa svo inná dagana hvað þarf að gera. Þið megið endilega nota þetta og segja mér hvernig þetta virkar fyrir ykkur <3




Umkringdu þig fólki sem þú elskar <3

Það getur verið erfitt að koma sér af stað og hitta vini sína þegar þunglyndið og kvíðinn er alveg að gera út af við mann og maður vill bara liggja uppí rúmi. En ég skal lofa ykkur því að það að fara og hitta fólkið sitt getur verið jafn gott og að fara til sálfræðings! Það er magnað hvað það hefur góð áhrif á mann að eyða tíma með fólki sem maður elskar og hefur gaman af að vera í kringum. Umkringdu þig fólki sem þú getur treyst, sem eru til staðar fyrir þig, sem þykir vænt um þig og sem lætur þér líða vel <3




Hollt mataræði

Maður á það til að detta í sukk fæði þegar manni líður ekki vel en það er bara að fara að láta manni líða enn verr. Sumir hafa litla sem enga matarlyst en aðrir fá aukna matarlyst og þá er það oftast óhollur matur sem verður fyrir valinu. Það skiptir máli fyrir allt í lífinu að huga að mataræðinu sínu afþví að það hefur áhrif á svo margt í líkamanum. Við þurfum næringu til þess að hugsa, framkvæma hluti og svo margt fleira og næring er það mikilvægasta sem við gefum líkamanum.

Ég mæli með að borða alltaf næringarríkan morgunmat og borða svo hollan mat restina af deginum og svo er aðalatriðið að drekka nóg af vatni!! Vatn gerir miklu meira en maður gerir sér grein fyrir. Svo er einnig mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að taka D-vítamín, við fáum ekki nóg af því á veturna sérstaklega og við þurfum á því að halda til þess að líða vel.



Rútína

Það skiptir svo miklu máli að vera í rútínu sama hvort maður sé í fríi eða ekki. Ef maður fer alltaf að sofa á svipuðum tíma á hverju kvöldi og vaknar á svipuðum tíma á hverjum morgni þá verða allir dagar svo mikið betri. Maður verður orkumeiri og manni líður almennt betur. En auðvitað þarf maður að ná góðum nætursvefni svo maður verður að plana svefnrútínuna í takt við 7-9 tíma svefn, fer eftir hverjum og einum. Ég til dæmis þarf að sofa í 8 og hálfan tíma að minnsta kosti til þess að líða vel á daginn. Eftir að ég fór að passa það hvenær ég fer að sofa, hvenær ég vakna og hversu lengi ég sef þá hafa lífsgæði mín aukist til muna og ég mæli með að allir fari að endurskoða svefnrútínuna sína og finna hvað líkaminn þarf mikinn svefn til þess að líða vel.


Hamingjulistinn

Ég mæli eindregið með því að skrifa niður lista yfir það sem manni finnst skemmtilegt að gera og gerir mann hamingjusaman og svo þegar maður þarf á því að halda þá grípur maður í listann og finnur eitthvað á honum til þess að gera. Þegar maður er langt niðri þá er mjög erfitt að finna sér eitthvað skemmtilegt að gera afþví manni finnst allt vonlaust. Því er mjög sniðugt að skrifa þennan lista þegar þér líður vel og jafnvel þegar þú ert að gera skemmtilega hluti að skrifa þá niður og bæta þeim á listann. Þetta geta verið mjög einfaldir hutir sem auðvelt er að koma í verk, ég ætla að nefna nokkur dæmi sem eru á hamingjulistanum mínum: Horfa á Trolls, fara í fótbolta, horfa á live tónleika með Justin Bieber, hitta vini mína, hlusta á Þarf alltaf að vera grín podcastið og svo er margt flerira sem ég hef safnað saman með tímanum og finnst alltaf gott að grípa í þegar mér finnst eins og það sé ekkert skemmtilegt hægt að gera.




 

Ég vona svo innilega að eitthvað af þessu geti komið ykkur að gagni á einhvern hátt. Ég vil samt minna á að ég er ekki fagaðili heldur er ég bara að tala af minni persónulegu reynslu og vona að hún geti hjálpað einhverjum sem þarf á því að halda <3

Takk fyrir að gefa ykkur tíma til að lesa þessa færslu og ef það vakna spurningar varðandi þetta þá megiði endilega senda á mig og ég reyni að útskýra betur <3


Að lokum vil ég bara minna á að það er alltaf von sama hversu lítil hún virðist vera <3 Kærleiksknús- Júlíana Dögg


Commenti


bottom of page